Nýtt Alfa-námskeið fer að hefjast í Lindakirkju!

Kynningarfundur um Alfanámskeið í Lindakirkju verður miðvikudagskvöldið 25. september 2019 kl. 18:00 og verður boðið uppá ljúffengan kvöldverð.

Alfanámskeið hefst með kynningarfundi 25. september næstkomandi. Alfanámskeiðið verður svo næstu sjö vikurnar á eftir á miðvikudagskvöldum kl. 18:00-20.00. En Alfa er tilvalið fyrir þau sem vilja rifja upp út á hvað kristin trú gengur. Námskeið í grundvallaratriðum trúarinnar.

Námskeiðið hefst alltaf með góðum heimagerðum mat og svo er fyrirlestur dagsins fluttur, stundum með hjálp myndbandstækni.

Eftir það er skipt í smærri umræðuhópa, þar sem allar spurningar og vangaveltur eru velkomnar. Í lok námskeiðsins er Alfa-helgi þar sem þátttakendur fara saman útúr bænum og gista í sumarbúðunum Ölveri eina helgi. Þar er lögð áhersla á að næra allt í senn líkama, sál og anda og oft myndast gefandi vinabönd á námskeiðinu.

Umsagnir frá einstaklingurm sem hafa sótt námskeiðið í Lindakirkju:

Lárus Guðmundsson:
,,Alfa námskeiðið kom mér skemmtilega á óvart, ekki síst þar sem það snýst svo mikið um opna umræðu. Fyrir mig er þetta fyrst og fremst góð leið til þess að hafa andlega þáttinn með í lífinu og minna sig á hann. Þar er einmitt mikilvægt að vera meðal annara sem hafa svipaða hluti að leiðarljósi. Fræðsluefnið mjög aðgengilegt, maturinn góður og gott að vera í góðum félagsskap.“

Heiðdís Karlsdóttir:
,,Alfanámskeiðið er skemmtilegt og áhugavert. Gefandi samvera og þægilegt andrúmsloft ríkti á námskeiðinu. Ég heyrði fræðslu um boðskap Biblíunnar og kærleika Krists, sem gaf mér dýpri skilning á lífinu og tilverunni. Innra með mér ríkti meiri friður, kærleikur og þakklæti, Alfa-námskeið er opið fyrir alla. Á námskeiðinu færðu tækifæri til að taka þátt í umræðum um trúna og lífið. Hver og einn kemur á eigin forsendum og ekki eru gerðar kröfur um trúarafstöðu. Alfahelgin er í uppáhaldi hjá mér, helgin er stór hluti af námskeiðinu og er einstök upplifun.“.

Það er frítt á kynningarkvöldið en kostnaður við að vera með hinar 7 vikurnar og á Alfa-helginni í Ölveri er 18.900 krónur og eru námskeiðs gögn innifalin, 7 kvöldverður og matur og gistning í tvær nætur á Alfa-helginni.

Almennt um Alfanámskeiðin

Alfa námskeiðið hófst í Englandi fyrir u.þ.b. 20 árum. Námskeiðið er nú haldið í um 130 löndum í flestum kirkjudeildum. Alfa er 8 vikna námskeið, einu sinni í viku, þar sem fjallað er um grundvallaratriðið kristinnar trúar á einfaldan og þægilegan hátt.

Tekist er á við mikilvægustu spurningar lífsins. Hvorki eru gerðar kröfur um trúarafstöðu né heimalærdóm eða aðrar skuldbindingar gerðar til þátttakenda. Hver samvera hefst með léttum málsverði. Síðan er kennt í 30 mínútur og eftir stutt hlé eru umræður í hópum.

Á Alfa námskeiðinu gefst fólki tækifæri til að spyrja spurninga og taka þátt í skapandi umræðu um lífið og tilveruna.
Fyrir hverja er Alfa?
Alfa er öllum opið
* sem leita vilja svara við spurningum um tilgang lífsins.
* sem vilja kynna sér grundvallaratriði kristinnar trúar.
* sem langar að velta fyrir sér hvaða gildi móta líf okkar og samfélag.
* sem trúa, efast eða trúa ekki.
Um hvað er rætt á Alfa?
* Hver er tilgangur lífsins?
* Hver var og er Jesús Kristur?
* Hvaða heimildir eru til utan Biblíunnar um Krist?
* Hvernig varð Biblían til?
* Hvernig getum við lesið og skilið Biblíuna?
* Hvernig og hvers vegna eigum við að biðja?
* Hvernig leiðbeinir Guð okkur?
* Hvernig getum við orðið viss í trúnni?
* Hver er heilagur andi og hvað gerir hann?
* Hvernig get ég best varið lífinu sem ég á eftir lifað?
* Hvernig skilgreinir Biblían hið illa og hvernig getum við staðið gegn því afli?
* Læknar Guð nú á dögum?
* Hvaða hlutverki gegnir kirkjan?
* Hvað með eilífðina?
Alfa námskeiðið hefur vakið gífurlega athygli kirkju- og þjóðarleiðtoga, fjölmiðla og almennings í mörgum löndum. Í Bretlandi gerði t.d. hinn kunni sjónvarpsmaður, David Frost, sjónvarpþáttaröð um Alfa og kom námskeiðið og reynsla þátttakenda honum og samstarfsfólki hans þægilega á óvart. Ýmsir af þekktustu fjölmiðlum Vesturlanda hafa fjallað um Alfa námskeiðið.
Daily Telegraph sendi blaðamann sinn á Alfa námskeið:
„ Þegar ég hugsa um reynslu liðinna vikna finnst mér ég hafa verið í tilhugalífi . . . Ég er enn ekki viss um hver var að biðja mín en ég vil gjarnan trúa því að það hafi verið Hann er ekki þau.“
Í viðtali í Newsweek við Nicky Gumbel, forystumann Alfa í Bretlandi, segir: „Það er ekki hægt að skýra það sem er að gerast öðruvísi en að Heilagur andi sé að verki. Efnishyggju nútímans hefur mistekist að svara spurningum fólks um eðli og tilgang lífsins.“

Hægt er að kynna sér Alfanámskeiðin á alfa.is.

Skráning