Skráning í þjóðkirkjuna skiptir máli fyrir starf Lindakirkju.

Það skiptir máli hvaða trú- eða lífskoðunarfélag þú velur. Með því að tilheyra þjóðkirkjunni stuðlar þú að öflugu trúar- og menningarstarfi í nærumhverfi þínu. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að velja að tilheyra þjóðkirkjunni:  

Öflugt starf fyrir nærumhverfi þitt

Sóknargjöldin fara beint og óskipt til þinnar heimasóknar. Sóknargjöldin hjá þeim sem búa í Linda-, Sala-, Kóra-, Þinga- eða Vatnsendahverfi fara þannig til Lindakirkju. Þau sem skráð eru í þjóðkirkjuna geta boðið sig fram til sóknarnefndar sem ákveður hvernig fjármunum er varið. Í Lindakirkju notum við þau í að greiða tónlistarstjóra, djákna, æskulýðsstarfsfólki, kirkjuvörðum, öðru starfsfólki, kaffisopanum eftir stundir, fræðsluefni, tryggingum, hita og rafmagn.

Fjölbreytt og viðamikið starf

Við erum stolt af starfinu okkar: Öflugum kirkjukór undir stjórn Óskars Einarssonar, unglingagospelkór sem og barnakór undir stjórn Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur, krílasálmanámskeiðum, sunnudagaskóla með Regínu Ósk og Svenna Þór í fararbroddi ásamt fleira góðu starfsfólki, 6-9 ára starfi, foreldramorgunum, KFUM starfi fyrir ólíka aldurshópa frá 4. og upp í 10.bekk, haust og vorferðir í Vatnaskóg, miðnæturíþróttamót fyrir unglinga, Vinavoðir prjónahóp, lofgjörðarstundir, Alfa-námskeið, hjónanámskeið, fjölgreinastarf, bæna og kyrrðarstundir, eldriborgarasamverur, tónleika og aðventukvöld, sálgæslu og sorgarstarf, sumarleikjanámskeið fyrir 6-10 ára börn í samstarfi við KFUM og KFUK.

Uppbygging á góðri aðstöðu

Við í Lindasókn viljum byggja kirkjuhúsið okkar upp með skynsemina að leiðarljósi. Góðir hlutir gerast hægt. Við ráðumst ekki í framkvæmdir nema til sé fyrir þeim. Á hverju ári tökum við einhver skref í átt að betri húsakosti. Um þessar mundir eru blikksmiðir að vinna við að klára loftræstikerfi. Í hitti fyrra bættum við við kaffistofu og nýrri skrifstofu og árið þar á undan gerðum við eldhúsið að framreiðslueldhúsi. Nú í ár var kjallarinn tekinn í notkun fyrir barna og unglingastarfið. Sóknargjöldin borga fyrir viðgerðir og rekstur kirkjunnar þinnar.

Stuðningur við fólk í hverfinu og Hjálparstarf kirkjunnar hérlendis sem erlendis

Lindakirkja er með líknarsjóð sem einstaklingar, fyrirtæki og sóknarnefnd leggur fjármuni til. Þannig styðjum við fjölskyldur og einstaklinga í hverfinu sem þurfa aðstoð á erfiðum tímum í lífi þeirra. Við höldum einnig reglulega tónleika og viðburði til að styðja við Hjálparstarf kirkjunnar, fermingarbörnin ganga um hverfið í byrjun nóvember og styðja þannig vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Afríku. Stuðningur við líknarstarf á vegum Lindakirkju hleypur á milljónum.

Lýðræðisleg hreyfing, opið og gegnsætt bókhald

Öll þau sem skráð eru í þjóðkirkjuna og hafa náð 18 ára aldri mega bjóða sig fram í sóknarnefnd sem kosin er á aðalfundi. Sóknarnefndin ráðstafar sóknargjöldunum og ákvarðar hvaða áherslur skuli leggja í starfi kirkjunnar. Á aðalfundi eru ávallt lagðir fram endurskoðaðir fjárhagsreikningar hvers árs, flutt skýrsla af starfi sóknarinnar og tillögur að fjárhagsáætlun. Aðalfundir eru auglýstir samkvæmt lögum og standa öllum opnir.

Sóknargjöldin fara ekki til Biskups, yfirstjórnar eða biskupsstofu.  

Sóknargjöld þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni renna beint til sóknarinnar í þínu hverfi. Þau fara ekki í það að borga fyrir yfirstjórn kirkjunnar. Þau greiða ekki laun presta, biskups, vígslubiskupa eða annarra starfskrafta biskupsstofu.

Ef þú ert eða hefur verið ósátt/ur við yfirstjórn kirkjunnar en finnst starfið sem sóknin er að vinna gott, ekki segja þig úr kirkjunni vegna þess. Það bitnar á sókninni þinni en ekki stofnuninni þjóðkirkjunni.

Þú getur skoðað trúfélagsskráninguna þína og breytt henni með því að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum á eftirfarandi slóð: