Barnakór Lindakirkju hefur verið starfandi frá hausti 2018 og eru flestir kórfélagar úr 3.-6. bekk. Stjórnendur kórsins frá upphafi eru mæðgurnar Áslaug Helga Hálfdánardóttir tónlistarkennari og Hjördís Anna Matthíasdóttir básúnuleikari og menntaskólanemi. Þeim til fulltyngis á píanóinu þegar um stærri viðburði ræðir er Óskar Einarsson tónlistarstjóri Lindakirkju.

Barnakórinn hefur ekki orðið varhluta af lokunum eins og aðrir í þjóðfélaginu. Mikið vorum við því ánægð að geta hist og sungið saman og eftir aðeins 3 æfingar var ákveðið að skella í einfalda upptöku og senda smá Gleði út í kosmósið. Lagið heitir „Ég bæn sendi Guði“ og er eftir Áslaugu kórstjóra.

Barnakórinn hefur á sínum stutta ferli tekið þátt í fjölmörgum verkefnum. Má þar nefna að syngja í tónleikasýningunni The Greatest Showman sem sýnd var í Lindakirkju 2019. Tekið þátt í aðventukvöldum Lindakirkju 2018 og 2019 sem hafa skipað fastan sess hjá mörgum tónlistarunnendum. Barnakórinn söng inn á lag með dúóinu Sprite Zero klan, sem hefur fengið mikla spilun á tónlistarveitum og er vel þekkt meðal yngra fólks. Jafnframt hélt kórinn sína eigin tónleika ásamt Unglingagospelkór kirkjunnar og verður sú hefð áfram. Einnig hefur sunnudagaskólinn fengið Barnakórinn í heimsókn.

Því miður er ekki tekið við fleiri kórfélögum í bili, enda stutt til vors. Í haust opnum við þó fyrir skráningu að nýju.

Með laginu sendum við ykkur vonandi smá gleði í hjartað.

Á Youtube rás Lindakirkju eru fleiri myndbönd frá kirkjunni.