Enn á ný tekur safnaðarstarfið að blómgast um sama leyti og gróandi sumarsins byrjar að gefa eftir. Að þessu sinni þarf safnaðarstarfið þó að lúta þeim reglum sem yfirvöld setja hverju sinni um sóttvarnir og fjöldatakmarkanir vegna kórónuveirunnar. Þegar þetta er ritað virðist vera að birta frekar til í þeim málum en allar upplýsingar sem koma fram hér í blaðinu eru settar fram með þeim fyrirvara að þær kunna að taka breytingum af þessum ástæðum. Sunnudagaskólinn verður á sínum stað kl. 11, eins og allt árið um kring því hann var einnig vel sóttur í sumar.

Guðsþjónustur safnaðarins verða að venju kl. 20 á sunnudagskvöldum og hefur sá messutími unnið sér sess hjá mörgum. Þar syngur hinn rómaði Kór Lindakirkju undir stjórn Óskars EInarssonar og prestar Lindakirkju; Dís Gylfadóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðni Már Harðarson þjóna þar til skiptis. Við erum stolt af safnaðarstarfinu okkar.

Í þessu blaði er sagt frá prjónahópi sem ber nafnið Vinavoðir, súpusamverum eldri borgara, foreldramorgnum, Alfa námskeiði, lofgjörðarstundunum Máttugir miðvikudagar, barna- og unglingakórastarfi, 12 spora starfi. æskulýðsstarfi Lindakirkju og KFUM og K og biblíulestrakvöldum, svo eitthvað sé nefnt. Fylgist vel með á heimasíðunni og gerist vinir Lindakirkju á Facebook þar sem safnaðarstarfið er kynnt jafn óðum.