Nýlega var ákveðið að festa kaup á forláta Hammond kirkjuorgeli árgerð 1937 ásamt Lesley. Hvort tveggja er gert upp af tónlistarsnillingnum Þóri Baldurssyni. Í október verða haldnir tónleikar til styrktar orgelkaupunum þar sem fjöldi frábærra tónlistarmanna mun stíga á stokk ásamt þeim Óskari Einarssyni, tónlistarstjóra Lindakirkju, Kór Lindakirkju og Þóri Baldurssyni. Dagsetning tónleikanna var ekki ákveðin þegar blaðið fór í prentun en verður rækilega auglýst þegar nær dregur.

Óskar Einarsson hefur verið tónlistarstjóri Lindakirkju í 10 ár, auk þess að vera tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu. Þau tímamót urðu 1. september að Óskar lét af störfum fyrir Fíladelfíu og er því eingöngu í starfi hjá Lindakirkju. Óhætt er að segja að fáir fari í föt Óskars, sem nýtur vinsælda og virðingar bæði hjá tónlistarfólki og meðal landsmanna. Óskar býr í Mosfellsbæ og er gaman að segja frá því að nýlega var hann valinn bæjarlistarmaður þar fyrir næsta ár. Við í Lindakirkju notum þetta tækifæri til að óska honum til hamingju með þann verðskuldaða heiður.