Gleðilega páska. Í kristinni kirkju fögnum við upprisu Jesú og dagarnir frá páskum til hvítasunnu hafa verið nefndir gleðidagar. Í kvöld, sunnudaginn 19. apríl kl. 20:00 hefja göngu sína nethelgistundir frá Lindakirkju með breyttu sniði. Þær verða sendar út á lindakirkja.is og á Facebook síðu Lindakirkju. Stundirnar verða þematengdar og þema kvöldsins er GLEÐI. Allir prestar Lindakirkju taka þátt, Óskar Einarsson leiðir tónlistina að venju en með honum leikur Páll E. Pálsson á kontrabassa. Félagar úr Kór Lindakirkju syngja og Áslaug Helga Hálfdánardóttir djákni flytur frumsamið lag og segir frá því hvernig það varð til. Stúlkur úr Unglingagospelkór Lindakirkju lesa ritningarlestra og leiða bænastund. Hugleiðingu flytur sr. Dís Gylfadóttir. Ráðgert er að senda út Helgar stundir að minnsta kosti næstu þrjá sunnudaga.