Umræðan um aðgerðir við Corona veirunni hefur ekki farið fram hjá neinu okkar undanfarið. Okkur í Lindakirkju ber að sýna ábyrgð og við höfum gert áætlun varðandi fermingar vorsins í samræmi við stefnu yfirvalda og tilmæli Biskups Íslands. Hér er sú áætlun:

1. Meðan samkomubann er ekki gengið í gildi stefnum að því að ferma á auglýstum dögum í vor án altarisgöngu og prestarnir munu ekki heilsa fermingarbarni með handabandi við fermingu eins og vjð höfum gert hingað til. Við munum að sjálfsögðu bjóða fermingarbörnum og fjölskyldum þeirra að taka þátt í altarisgöngunni síðar. Þau sem treysta sér til að vera við athafnirnar í vor hvetjum við til handþvotta og þeirra sóttvarnarleiða sem Landlæknir hefur auglýst undanfarið.  Ef einhverjar fjölskyldur fermingarbarna kjósa að hætta við fermingu nú í vor þá erum við prestarnir boðnir og búnir til að finna þeim annan tíma.

2. Ef yfirvöld setja á samkomubann falla allar fermingar vorsins sjálfkrafa niður. Ef svo fer bjóðum við upp á þrjár fermingarhelgar í sumarlok, laugardaginn 22. ágúst kl. 10:30 og 13:30, sunnudaginn 23. ágúst kl. 13:30, laugardaginn 29. ágúst kl. 10:30 og 13:30, sunnudaginn 30. ágúst kl. 13:30 síðasta fermingarhelgin verður þá laugardaginn 5. september kl. 10:30 og 13:30 og sunnudaginn 6. september kl. 13:30. Skráningar í þær fermingar hefjast ekki nema þörf verði á en þá verða þær með sama sniði og síðast, gegn um heimasíðu Lindakirkju.

Að lokum þetta: Í fyrsta Jóhannesarbréfi þriðja kafla standa þessi orð: ,,Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.”  Þessi orð eiga vel við nú á dögum því í kring um okkur eru bæði aldraðir ástvinir og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma. Nú er það okkar allra að vernda þau sem eru í sérstökum áhættuhópi.

Kynnum okkur vel spurningar, svör og tilmæli Landlæknisembættsins sem finna má hér.

Bestu kveðjur,

Prestar Lindakirkju