Næstkomandi sunnudagskvöld, 5. nóvember, heldur Kór Lindakirkju tónleika undir yfirskriftinni Gospel og gleði. Lagavalið verður ljúffengt bland í poka með stórum ballöðusprengjum og ekta gospelsveiflum. Fjölmargir einsöngvarar úr kórnum taka lagið. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Það er nóg um að vera hjá kórnum þessa dagana en hann söng sig inn í úrslitin í keppninni Kórar Íslands á Stöð 2 síðastliðið sunnudagskvöld. Kórinn flutti lagið In Your Presence en höfundur þess er stjórnandi kórsins, Óskar Einarsson.

Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið frábærar og dómefndin sagði m.a. að það hefði verið djarft að koma með frumsamið lag en lagið væri dásamlegt, í frábærri útsetningu og kórinn hefði neglt flutninginn. „Ég hef ekkert út á þetta að setja. Bara æðislegt,“ sagði Bryndís Jakobsdóttir, einn dómaranna.

Úrslitaþátturinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sunnudaginn 12. nóvember og ráðast úrslit með símakosningu. Til mikils er að vinna því sá kór sem stendur uppi sem sigurvegari hlýtur að launum gjafabréf frá Icelandair að verðmæti fjórar milljónir króna. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að horfa og kjósa. Þátturinn er sýndur í lokaðri dagskrá en þó geta þeir sem ekki eru áskrifendur tekið í símakosningunni.

Hér er hægt að horfa á flutninginn frá því á sunnudagskvöld.