Kór Lindakirkju tekur þátt í keppninni Kórar Íslands sem hefur göngu sína á Stöð 2 í lok september. Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á sunnudagskvöldum en alls taka tuttugu kórar hvaðanæva af landinu þátt.

Fyrirkomulag keppninnar er þannig að fyrstu fimm þættirnir eru undankeppni þar sem tveir kórar komast áfram úr hverjum þætti. Tíu kórar komast áfram í undanúrslit, þ.e. næstu tvo þætti. Tveir kórar úr hvorum undanúrslitaþætti komast svo í úrslit þar sem einn kór stendur uppi sem sigurvegari. Úrslit í undankeppni og undanúrslitum ráðast með símakosningu og atkvæðum þriggja manna dómnefndar, en úrslitin sjálf ráðast eingöngu með símakosningu.

Kór Lindakirkju æfir nú af fullum krafti fyrir undankeppnina en kórinn keppir í beinni útsendingu sunnudagskvöldið 8. október. Saga Film framleiðir þættina og sendi tökulið á kóræfingu í Lindakirkju nú nýverið til að fylgjast með og taka upp kynningarefni.

Hægt er að fylgjast með kór Lindakirkju á Facebook-síðu kórsins.