Kópavogur 26. ágúst 2010

Ferming í Lindakirkju 2011


Kæru foreldrar/forráðamenn fermingabarna 2011 í Lindakirkju

Senn líður að upphafi fermingarstarfsins í Lindasókn. Fyrr í sumar sendum við leiðbeiningar bréfleiðis um hvernig skráning fer fram á www.lindakirkja.is .

KVÖLDVÖKUR verða með foreldrum  og fermingarbörnun í Lindakirkju  miðvikudaginn 1. september. fyrir Lindaskóla  kl. 18  en  kl. 20 fyrir Sala-, Hörðuvalla-, og Vatnsendaskóla.  Þar verður slegið á létta strengi og farið yfir tilhögun fermingarstarfanna.  Yngri systkini eru einnig velkomin á kvöldvökurnar.

FERMINGARFRÆÐSLAN hefst svo þriðjudaginn 7.  september en þá mæta 8. ÞÁ og 8. RE úr Lindaskóla klukkan 14:10 og 8. BP kl. 15:15. Miðvikudaginn 8. september hefst kennsla hjá Salaskóla kl. 14:00 og hjá Hörðuvallaskóla og Vatnsendaskóla kl. 15:00 en rúta mun sækja börnin kl. 14:45 í Vatnsendaskóla og kl. 14:50 í Hörðuvallaskóla.

FRÆÐSLUGJALD hafa þó nokkrir þegar greitt, en barnið er ekki formlega skráð fyrr en búið er að ganga frá greiðslu. Hún skiptist þannig:  Fermingarfræðslugjald kr. 9300 námsefni kr. 2100 kyrtilgjald kr. 1600 kr Samtals 13.000 kr.

Bankaupplýsingar: 0322-13-700010 kt. 550302-2920 kvittun sendist á sigridur@lindakirkja.is

FERMINGARNÁMSKEIÐ í Vatnaskógi er mikilvægur liður í fermingarfræðslunni. Það stendur yfir í einn og hálfan sólarhring en Lindaskóli fer 4.-5. október og Hörðuvalla-, Sala- og Vatnsendaskóli þann 6.-7. október. Bent skal á að foreldrar verða að biðja um frí frá skólanum fyrir börnin sín þessa daga. Ferðin er að verulegu leyti greidd niður af Lindasókn og prófastdæminu. En hlutur barnsins er 6000 krónur og allt innifalið, rútur, gisting og allur matur. Gjaldið greiðist við rúturnar á brottfarardegi.

Kær kveðja,

Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson og sr.Guðni Már Harðarson

Lindakirkja s. 544 4477

Fermingarferð í Vatnaskóg

Börn úr Salaskóla og Hörðuvallaskóla leggja af stað kl 8:00 miðvikudaginn 6. 10. og koma heim daginn eftir kl. 15:30 á sama stað. 
Ábending um nauðsynlegan fatnað:
* Eitt sett af fötum til skiptanna (nærföt, sokkar, buxur, skyrta, peysa).

* Hlý peysa, vettlingar, trefill og húfa.
* Vind- og vatnsheldur jakki eða úlpa.
* Íþróttafatnaður og inniíþróttaskór.
* Stígvél eða gönguskór og hlýir sokkar.

Það er mjög mikilvægt að hafa með sér hlý föt og góðan skjólfatnað þar sem hluti af dagskrá námskeiðsins fer fram utan dyra og allra veðra von. Einnig er brýnt að hafa með sér inniíþróttaskó vegna íþrótta og leikja í íþróttahúsi.

Annað sem vert er að hafa með sér:
* Svefnpoka eða sæng, lak og kodda.
* Handklæði, greiðu, tannbursta og tannkrem.
* Biblíu eða Nýja testamenti.

Athugið:
Ætlast er til þess að hvers konar hljómtæki, GSM-símar og tölvuspil séu skilin eftir heima. Engin þörf er heldur á því að hafa með sér skriffæri því Skógarmenn KFUM sjá um að útvega slíkt. Á hinn bóginn er frjálst að hafa með sér myndavélar og venjuleg spil. Hljóðfæri má fólk einnig taka með sér ef ætlunin er að hafa tónlistaratriði á kvöldvöku.

Óskilamunir:

Allir óskilamunir sem finnast í Vatnaskógi eru sendir á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg og þar er hægt að vitja þeirra á skrifstofutíma klukkan 10-17. Síminn er 588 8899. Þremur mánuðum eftir að námskeiðum lýkur áskilja Skógarmenn KFUM sér rétt til að ráðstafa ósóttum óskilamunum.

Umgengnisreglur í Vatnaskógi
* Allir eiga að fá að njóta dvalarinnar. Við kappkostum því að vera góðir félagar og sýnum tillitsemi í samskiptum. Þeir sem vísvitandi reyna að eyðileggja dvölina fyrir öðrum eru sendir heim á eigin kostnað.
* Þess er vænst að allir þátttakendur taki þátt í öllum dagskrárliðum nema annað sé sérstaklega tekið fram.
* Við göngum vel um húsnæði og eigur Vatnaskógar. Ef einhver verður vísvitandi valdur að tjóni bætir viðkomandi fyrir það.
* Vatnaskógur er friðlýst skógræktarsvæði. Það er því mikilvægt að um skóginn sé gengið af nærfærni og þess gætt að kasta ekki rusli á víðavangi.
* Um bátana og vatnið gilda sérstakar reglur sem þátttakendum ber að virða. Kynnið ykkur reglurnar áður en þið farið út á bát.
* Við hjálpumst að við frágang eftir matartíma og hreinsum til í herbergjum áður en við yfirgefum staðinn.
* Mjög mikilvægt er að allir virði auglýsta kvöldró svo að dvalargestir og starfsfólk fái notið nægrar hvíldar.

Umsjón með fermingarnámskeiðunum hafa Skógarmenn KFUM við Holtaveg, pósthólf 4060, 124 Reykjavík. Sími 588 8899. Fax: 588 8840.